Hvað kostar sál Herdísar?

Mikil umræða hefur skapast um fjármál frambjóðenda, enda hefur það verið stemningin hér á landi undanfarin ár og birtist meðal annars í rannsóknarskýrslu Alþingis að það væri einfalt mál að kaupa sér pólitíkus. Sú umræða hefur oft á tíðum verið á villigötum að mínu mati og frambjóðendur hafa verið aflífaðir fyrir að þiggja fé frá “röngum aðilum” eða að upphæðirnar hafi verið of háar. Forsetaframbjóðendur hafa verið duglegir við að ræða um fjármál framboðanna. Það skrítnasta í þessari umræðu hefur verið að ákveðnir frambjóðendur og Herdís þar fremst í flokki hafa neitað að taka við peningum frá fyrirtækjum.

Í því ljósi finnst mér vera eðlilegt að spyrja, hvað sál Herdísar kostar?

Getur Síminn t.d. keypt sál Herdísar fyrir 23 þúsund, eins og sú upphæð sem Herdís endurgreiddi Símanum eftir að Síminn hafði óumbeðinn greitt inn á reikning Herdísar? Ef forstjóri Símans ákveður nú að greiða henna úr eigin vasa, er munur á því?

Upplýsingingar eru góðar en fullkomið gagnsæi er einfaldlega ekki til. Ef menn óttast að framboð spillist á einhvern hátt við það að þiggja 23 þúsund króna gjafir frá fyrirtækjum, þá er ýmislegt annað sem slík framboð þurfa að óttast. Ef einhver dæmi eru nefnd, þá eru margir sem leggja hönd á plóg í slíkum baráttum og leggja fram tíma og vinnu við að koma frambjóðendum á framfæri. Hver eru áhrif þeirra? Hvað með vini frambjóðendans? Fjölskylda?  Lánadrotnar?  Fólk sem litið er upp til?

Hvað er þá með frambjóðenda sem steypir sjálfum sér í skuldir við framboðið líkt og Ólafur gerði þegar hann fór fyrst í framboð árið 1996. Ólafur hefur ítrekað verið spurður um hver hafi greitt af þessu og vanalega hefur hann eytt umræðunni með óljósum svörum um tugi þúsundunda Íslendinga og að hann hafi ekki geymt bókhaldið. Nú ætla ég ekki að ætla honum eittthvað óheiðarlegt í þeim efnum, en á meðan hann man ekki sjálfur hvernig þessi skuld var greidd, þá vitum við lítið um það. Þetta gefur hins vegar tilefni til vangaveltna varðandi sambærilegar aðstæður. Jafnvel þótt forsetaframbjóðandi upplýsi alla styrki sem honum hefur borist fyrir kosningar á kjördag og við hefðum fullkomið kerfi þar sem upplýst væri í rauntíma um alla þá sem styrkja frambjóðendur, þá hefðum við ekki fullkomið gagnsæi í slíku tilfelli. Að minnsta kosti ekki þangað til löngu síðar, þá getur alltaf gerst eins og hjá Ólafi að tugir þúsunda hafi greitt og jafnvel þótt einn af þessum tugum þúsundu hafi greitt mest og jafnvel meginhluta skuldarinnar.

Á endanum verða menn bara að beita eðlilegri skynsemi. Ef menn ætla að það sé hægðarleikur að kaupa sér frambjóðenda, þá er það líka hægt á margan annan hátt en að greiða beint í kosningarsjóði hans.

Samfélagsmiðlarnir

  Aðgangur að náttúruperlum

  Það skýtur óneitanlega skökku við þegar formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands krefst þess að almenningur fái óheftan aðgang að náttúruperlum landsins, óháð því hvort sá ágangur sé að eyðileggja náttúruna eður ei. Um leið og ferðmennska hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum, þurfum við að fara að hugsa hvort ágangur á þessa vinsælu ferðamannastaði séu að valda varanlegu tjóni.

  Við eigum líka að vera óhrædd við að taka umræðu um hvort það megi ekki rukka inn á ákveðnar náttúruperlur. Erlendis þykir það ekkert tiltökumál. Ég greiddi á sínum tíma 3 Evrur til að skoða “hæsta foss” Þýskalands og minnist þess að hafa greitt inn á fleiri staði. Á meðan við horfum upp á gersemar eins og Geysis-svæðið í algjöri niðurníðslu, virðist það vera óhugsandi að rukka fólk nokkra hundraðkalla fyrir að skoða það. Sú litla upphæð myndi hins vegar koma á móti þeim kostnaði sem kostar að sjá til þess að svæðið sé í þokkalegu ástandi og það sé ekki beinlínis hættulegt að sækja það heim.

  Og fyrst formanninum er á annað borð svona umhugað um aðgengi landsmanna að náttúruperlum, hlýtur hann að skella sér til umhverfisráðherra og kvarta undan því hversu mjög hefur verið hert aðgengi að hálendinu. Nema að eina leiðin að hans mati sé að nálgast náttúruna gangandi.

  Þá hefði Kersmálið ekki átt að verða neitt vandamál, því sannarlega ætlaði ráðherrann ekki að ganga þangað, enda ein helsta ástæða þess að Kerið er svo vinsælt, er hversu auðvelt er að nálgast það akandi.

  Samfélagsmiðlarnir

   Leiksskólakennarar étið það sem úti frýs!

   Það var átakanlegt að horfa á Jón Gnarr og Dag B. Eggertsson mæta leikskólakennurum við ráðhúsið. Það var enn átakanlegra að horfa á borgastjóra tala eins og það væri bara jákvætt að verða dæmdur til að greiða leiksskólakennurum þau laun sem þau telja sig eiga rétt á. Hann tilkynnti að ef borgin yrði dæmd, myndi borgin greiða samkvæmt dómnum. Nema hvað? Hafi borgin verið dæmd til að greiða þessi laun, er varla neitt annað í stöðunni en að greiða þau.  Það er fátt jákvætt við það að þurfa að fara með svona mál fyrir dómstóla og enn síður ef borgin verður dæmd fyrir að brjóta kjarasamninga gegn leiksskólakennurum.

   Ég horfi á sama tíma á myndband Jóns Gnarr, þar sem hann lék borgarstjóra, ég gat ekki séð að honum væri sérstaklega skemmt í því hlutverki.  Hins vegar virtist það eiga betur við Jón Gnarr að leika fúlan kall sem vildi einræði þegar kom að ákvörðunum.  Þótt Jón reyni að leika hressan borgarstjóra svona þegar hann er í viðtölum, þá hegðar hann sér samt eins og fúli kallinn sem vill einræði í ákvarðanatöku og það sé bara óþarfi að leita til borgaranna.

   Þetta birtist t.d. alveg ágætlega þegar Jón ákvað upp á eigin spítur að fórna besta byggingarlandi í Reykajvík undir spítala.  Svæði sem myndi henta mun betur til íbúðabyggðar og gæti að minnsta kosti seinkað umræðu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Þetta ákvað Jón að gera án samráðs og enn eina ferðina var viðhorfið að fólk verði að sætta sig við þetta. Þar kom hans rétta andlit í ljós, fólk er fífl sem skilur ekki tillögurnar en verður bara að sætta sig við orðinn hlut.

   Við höfum horft upp á skólamálin í borginni, þar sem borgin hefur einhliða ákveðið sameiningar án þess að vera í nokkru samráði við íbúa. Eftir að allt hefur farið í loft í hverfunum hefur verið ákveðið sýndarsamráð en samt þannig að keyra á breytingarnar í gegn. Þegar fulltrúar borgarinnar hafa verið spurðir, þá er það ekki á þeirra sviði að svara spurningunum varðandi efnið eða fátt hefur verið um svör. Á fjölmennum fundum hefur ekkert verið hægt að gera, jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á að sparnaðurinn er lítill sem enginn og að þetta muni skapa mikið rask hjá börnunum.

   Þessa dagana fara fulltrúar borgarinnar um borginna og kynna tillögur að nýju aðalskipulagi, sami vinnuháttur er hafður á og áður og helst engar spurningar leyfðar. Þegar fulltrúar sem mæta eru spurðir þá er yfirleitt fátt um svör og vísað á aðrar deildir innan borgarinnar.

   Á sama tíma kemur borgarstjóri nú fram og auglýsir hið mikla lýðræði í borginni.  Þetta á jafnvel að vera fyrirmynd út fyrir landssteinana, þrátt fyrir að slíkar kosningar hafi áður farið fram með mjög svipuðu sniði. Íbúar fá að deila niður krónum í verkefni sem hafa verið fyrirfram ákveðin.  Í mörgum hverfum eru tillögurnar samt svo fáar að fáar, að um fátt er að velja en þær tillögur sem eru í boði. Þetta er hið mikla átak í íbúalýðræði.

   Það er auðvitað jákvætt að íbúar fái að ákveða um framkvæmdir í eigin hverfum, en þegar kemur að stóru málunum er langt frá því að það sé neitt íbúalýðræði í borginni.  Það er raunveruleikinn varðandi íbúalýðræðið, þetta er  fyrst og fremst sýndarmennska.

   Samfélagsmiðlarnir

    Skrýtnar árásir feminista

    Fyrirtækið Verkís hlaut á dögunum gullmerki jafnlaunakönnunar PWC, þar sem kom í ljós að launamunur á milli kynja var eingöngu 2%. Maður hefði haldið að það væri eðlilegt að femínistar (sem og aðrir) fögnuðu þessum góðu fréttum um fyrirtæki sem hefur staðið svo vel í að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu.

    En nei, Drífu Snædal, tekst með ótrúlegum baunatalningum að snúa þessu algjörlega á haus. Í stað þess að fagna þessu, þá horfir hún til þess að það eru fleiri konur sem eru með launalægri stöður en karlar.

    Er það virkilega það sem þetta gengur út á? Er það fyrirtækinu að kenna að áratugum saman útskrifuðust fleiri karlkyns verkfræðingar en kvenkyns? Þegar ég skráði mig í verkfræði voru ca. 17% nemenda konur, síðan hefur þetta breyst og áhugi kvenna á verkfræði hefur aukist. Væri ekki rétt að fagna því? Ég veit fyrir víst að fyrirtækið hefur verið mjög annt um að greiða sömu laun óháð kyni. Er það kannski lausn að mati Drífu að gera ekkert úr 5 ára háskólanámi verkfræðinga, og greiða það sama og til ómenntaðara starfsmanna? Það hljómar líklega ekkert vel, ef staðan væri þannig að fyrirtæki væri að greiða ómenntuðum karlmönnum sömu laun og konum með 5 ára háskólanám að baki.

    Ég hef oft í gegnum tíðina gagnrýnt að því er ég tel á málefnalegan hátt svona málflutning, en oftar en ekki verið fyrir vikið settur í hóp með “dónaköllum” og öðrum sem finnst töff að tala illa um konur. Að mínu mati hefur það verið til marks um öfgana í þessari umræðu að ekki megi gangrýna, þá sem eru að gangrýna á þennan máta án þess að vera sjálfur stimplaður öfgamaður. Það er ansi mikið til í orðum Helga Jean, þar sem hann veltir fyrir sér hvort femínistar eigi ekki að horfa til Gay-pride í baráttuaðferðum sínum.

    Það er alveg sama hvernig á það er litið, þá botna ég ekkert í því að eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur staðið sig best í að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu, skuli samt fordæmt. Hvað með að ráðast frekar á þau fyrirtæki sem standa sig ekki svona vel? Væri það ekki góð byrjun?

    Samfélagsmiðlarnir

     Að stjórna mótmælendum

     Það hefur verið merkilegt uppnám vegna viðtals við Geir Jón í Sprengisandi í morgun. Ég hlustaði á viðtalið í morgun og brást ekki við á sama hátt og þeir sem hafa nú farið hamförum á netinu. Þetta hefur einfaldlega verið í umræðunni lengi og þingmenn úr hópi VG hafa verið nafngreindir í þessu samhengi.

     Í umræðunni hafa menn gert rosalega mikið vegna þess að hann á að hafa sagt að þingmenn hafi stjórnað mótmælendum. Hann sagði aldrei í viðtalinu að þingmenn hafi stjórnað mótmælendum eins og strengjabrúðum eða gefið skipanir. Hvernig hefði það verið hægt? Gjallarhorn? HópSMS? Hann var hins vegar spurður út í hvort hóp mótmælenda hafi verið stjórnað og játti því (svona gróflega eftir minni). Það hefði mátt lýsa þessu á annan hátt og skýrari.

     Nú hefur Ragnar Þór (Maurild) komið fram og lýst símtali, sem er efnislega á sama hátt og þær sögur sem hafa verið í gangi:

     “Þegar Kryddsíldarþátturinn alræmdi var úr sögunni vegna ofsalegra mótmæla var hópur ungra stráka mjög uppivöðslusamur og löngu eftir að mestur vindur var úr mótmælunum ráfuðu þeir fram og til baka eins og þeir væru að leita að besta staðnum til að mótmæla. Stundum voru þeir við Austurvöll, stundum í Lækjargötu og stundum í portinu aftan við Borgina.

     Ég sá einn þeirra slíta símtali og snúa sér að hinum og segja: „Þetta var Steingrímur. Hann segir að þau séu farin.“ Framhald samtalsins var á þá leið að það væri tilgangslaust að mótmæla áfram fyrst búið væri að lauma liðinu burt.“

     Þarna er nákvæmlega dæmi um hvernig þessi stjórnun fór fram, einfaldlega með því að láta í té réttar upplýsingar og þótt ekki hafi verið um skipanir að ræða voru þetta skilaboð sem breyttu hegðun, framlengdu mótmælin og gerðu mótmælendum kleift að vera einbeittari í baráttu sinni. Þetta voru heldur ekki upplýsingar sem menn þurftu að dreifa, það er nóg að einn hafi fengið upplýsingarar og vinna eftir þeim.

     Það hefur enginn svo ég hafi heyrt fullyrt að þessi mótmæli hafi verið skipulögð af stjórnmálaöflum, fólk fór þarna vegna reiði. Reiðin sem var þarna var ekki sprottinn vegna skipanna stjórnamálamanna eða stjórnað af stjórnmálamönnum. Hún var raunveruleg. Stjórnmálamenn geta ekki stjórnað slíkum tilfinningum hjá fólki, þótt hægt að sé að ýta undir þær. Það fólk sem veitti þessar upplýsingar, situr nú hinum megin við borðið og finnur sjálft fyrir reiði almennings. Ég hugsa að margir sem stóðu þarna og börðust fyrir Nýja-Íslandi, velti nú fyrir sér hvert Ísland er komið í dag. Þetta fólk ætlaði að breyta hlutum en eftir sitja innihaldslausir frasar eins og skjaldborg um heimilin og norræn velferðarstjórn. Allur kraftur þessarar stjórnar hefur farið í innbyrðis deilur, þjóðin hefur þurft að horfa upp á 27 líf þessara stjórnar brenna upp eitt af öðru. Lítið hefur verið um aðrar fréttir en um deilurnar. Á meðan brenna heimilin.

     Spurningin er bara hvenær við fáum aðra “byltingu” og þá jafnvel með enn verri afleiðingum. Í Búsáhaldarbylgtingunni var fólk fyrst og fremst reitt, afleiðingar hrunsins voru ekki komnar fram. Í dag eru margir búnir að vera atvinnulausir í lengri tíma, þau greiðsluúrræði sem hafa verið í boði eru senn á þrotum.  Að því er virðist er eina fólkið sem hefur orðið fyrir barðinu á þessu er almenningur, á meðan við sjáum lítið af aðgerðum gegn raunverulegum sökudólgum. Enn sem komið er, þá er eini maðurinn sem hefur verið dæmdur í fangelsi, maður sem forðaði eigin peningum frá því að verða að engu. Hann hins vegar olli ekki hruninu frekar en ég.

     Ég er alla vegana hræddur við afleiðingar ef það koma upp önnur mótmæli, ég er hræddur þegar ég les svona frásagnir og vona að menn hætti að grjóthalda í stólana, bara til að halda í völdin og fari að vinna þá vinnu sem menn voru kosnir til að gera.  Fólk er komið með nóg af innihaldslausu glamri og talnaleikfimi, 10% af engu er ekki neitt og hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun. Fólk vill sjá alvöru breytingar.

     Samfélagsmiðlarnir