Hvað kostar sál Herdísar?

Mikil umræða hefur skapast um fjármál frambjóðenda, enda hefur það verið stemningin hér á landi undanfarin ár og birtist meðal annars í rannsóknarskýrslu Alþingis að það væri einfalt mál að kaupa sér pólitíkus. Sú umræða hefur oft á tíðum verið á villigötum að mínu mati og frambjóðendur hafa verið aflífaðir fyrir að þiggja fé frá “röngum aðilum” eða að upphæðirnar hafi verið of háar. Forsetaframbjóðendur hafa verið duglegir við að ræða um fjármál framboðanna. Það skrítnasta í þessari umræðu hefur verið að ákveðnir frambjóðendur og Herdís þar fremst í flokki hafa neitað að taka við peningum frá fyrirtækjum.

Í því ljósi finnst mér vera eðlilegt að spyrja, hvað sál Herdísar kostar?

Getur Síminn t.d. keypt sál Herdísar fyrir 23 þúsund, eins og sú upphæð sem Herdís endurgreiddi Símanum eftir að Síminn hafði óumbeðinn greitt inn á reikning Herdísar? Ef forstjóri Símans ákveður nú að greiða henna úr eigin vasa, er munur á því?

Upplýsingingar eru góðar en fullkomið gagnsæi er einfaldlega ekki til. Ef menn óttast að framboð spillist á einhvern hátt við það að þiggja 23 þúsund króna gjafir frá fyrirtækjum, þá er ýmislegt annað sem slík framboð þurfa að óttast. Ef einhver dæmi eru nefnd, þá eru margir sem leggja hönd á plóg í slíkum baráttum og leggja fram tíma og vinnu við að koma frambjóðendum á framfæri. Hver eru áhrif þeirra? Hvað með vini frambjóðendans? Fjölskylda?  Lánadrotnar?  Fólk sem litið er upp til?

Hvað er þá með frambjóðenda sem steypir sjálfum sér í skuldir við framboðið líkt og Ólafur gerði þegar hann fór fyrst í framboð árið 1996. Ólafur hefur ítrekað verið spurður um hver hafi greitt af þessu og vanalega hefur hann eytt umræðunni með óljósum svörum um tugi þúsundunda Íslendinga og að hann hafi ekki geymt bókhaldið. Nú ætla ég ekki að ætla honum eittthvað óheiðarlegt í þeim efnum, en á meðan hann man ekki sjálfur hvernig þessi skuld var greidd, þá vitum við lítið um það. Þetta gefur hins vegar tilefni til vangaveltna varðandi sambærilegar aðstæður. Jafnvel þótt forsetaframbjóðandi upplýsi alla styrki sem honum hefur borist fyrir kosningar á kjördag og við hefðum fullkomið kerfi þar sem upplýst væri í rauntíma um alla þá sem styrkja frambjóðendur, þá hefðum við ekki fullkomið gagnsæi í slíku tilfelli. Að minnsta kosti ekki þangað til löngu síðar, þá getur alltaf gerst eins og hjá Ólafi að tugir þúsunda hafi greitt og jafnvel þótt einn af þessum tugum þúsundu hafi greitt mest og jafnvel meginhluta skuldarinnar.

Á endanum verða menn bara að beita eðlilegri skynsemi. Ef menn ætla að það sé hægðarleikur að kaupa sér frambjóðenda, þá er það líka hægt á margan annan hátt en að greiða beint í kosningarsjóði hans.

Samfélagsmiðlarnir

  Aðgangur að náttúruperlum

  Það skýtur óneitanlega skökku við þegar formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands krefst þess að almenningur fái óheftan aðgang að náttúruperlum landsins, óháð því hvort sá ágangur sé að eyðileggja náttúruna eður ei. Um leið og ferðmennska hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum, þurfum við að fara að hugsa hvort ágangur á þessa vinsælu ferðamannastaði séu að valda varanlegu tjóni.

  Við eigum líka að vera óhrædd við að taka umræðu um hvort það megi ekki rukka inn á ákveðnar náttúruperlur. Erlendis þykir það ekkert tiltökumál. Ég greiddi á sínum tíma 3 Evrur til að skoða “hæsta foss” Þýskalands og minnist þess að hafa greitt inn á fleiri staði. Á meðan við horfum upp á gersemar eins og Geysis-svæðið í algjöri niðurníðslu, virðist það vera óhugsandi að rukka fólk nokkra hundraðkalla fyrir að skoða það. Sú litla upphæð myndi hins vegar koma á móti þeim kostnaði sem kostar að sjá til þess að svæðið sé í þokkalegu ástandi og það sé ekki beinlínis hættulegt að sækja það heim.

  Og fyrst formanninum er á annað borð svona umhugað um aðgengi landsmanna að náttúruperlum, hlýtur hann að skella sér til umhverfisráðherra og kvarta undan því hversu mjög hefur verið hert aðgengi að hálendinu. Nema að eina leiðin að hans mati sé að nálgast náttúruna gangandi.

  Þá hefði Kersmálið ekki átt að verða neitt vandamál, því sannarlega ætlaði ráðherrann ekki að ganga þangað, enda ein helsta ástæða þess að Kerið er svo vinsælt, er hversu auðvelt er að nálgast það akandi.

  Samfélagsmiðlarnir

   Leiksskólakennarar étið það sem úti frýs!

   Það var átakanlegt að horfa á Jón Gnarr og Dag B. Eggertsson mæta leikskólakennurum við ráðhúsið. Það var enn átakanlegra að horfa á borgastjóra tala eins og það væri bara jákvætt að verða dæmdur til að greiða leiksskólakennurum þau laun sem þau telja sig eiga rétt á. Hann tilkynnti að ef borgin yrði dæmd, myndi borgin greiða samkvæmt dómnum. Nema hvað? Hafi borgin verið dæmd til að greiða þessi laun, er varla neitt annað í stöðunni en að greiða þau.  Það er fátt jákvætt við það að þurfa að fara með svona mál fyrir dómstóla og enn síður ef borgin verður dæmd fyrir að brjóta kjarasamninga gegn leiksskólakennurum.

   Ég horfi á sama tíma á myndband Jóns Gnarr, þar sem hann lék borgarstjóra, ég gat ekki séð að honum væri sérstaklega skemmt í því hlutverki.  Hins vegar virtist það eiga betur við Jón Gnarr að leika fúlan kall sem vildi einræði þegar kom að ákvörðunum.  Þótt Jón reyni að leika hressan borgarstjóra svona þegar hann er í viðtölum, þá hegðar hann sér samt eins og fúli kallinn sem vill einræði í ákvarðanatöku og það sé bara óþarfi að leita til borgaranna.

   Þetta birtist t.d. alveg ágætlega þegar Jón ákvað upp á eigin spítur að fórna besta byggingarlandi í Reykajvík undir spítala.  Svæði sem myndi henta mun betur til íbúðabyggðar og gæti að minnsta kosti seinkað umræðu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Þetta ákvað Jón að gera án samráðs og enn eina ferðina var viðhorfið að fólk verði að sætta sig við þetta. Þar kom hans rétta andlit í ljós, fólk er fífl sem skilur ekki tillögurnar en verður bara að sætta sig við orðinn hlut.

   Við höfum horft upp á skólamálin í borginni, þar sem borgin hefur einhliða ákveðið sameiningar án þess að vera í nokkru samráði við íbúa. Eftir að allt hefur farið í loft í hverfunum hefur verið ákveðið sýndarsamráð en samt þannig að keyra á breytingarnar í gegn. Þegar fulltrúar borgarinnar hafa verið spurðir, þá er það ekki á þeirra sviði að svara spurningunum varðandi efnið eða fátt hefur verið um svör. Á fjölmennum fundum hefur ekkert verið hægt að gera, jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á að sparnaðurinn er lítill sem enginn og að þetta muni skapa mikið rask hjá börnunum.

   Þessa dagana fara fulltrúar borgarinnar um borginna og kynna tillögur að nýju aðalskipulagi, sami vinnuháttur er hafður á og áður og helst engar spurningar leyfðar. Þegar fulltrúar sem mæta eru spurðir þá er yfirleitt fátt um svör og vísað á aðrar deildir innan borgarinnar.

   Á sama tíma kemur borgarstjóri nú fram og auglýsir hið mikla lýðræði í borginni.  Þetta á jafnvel að vera fyrirmynd út fyrir landssteinana, þrátt fyrir að slíkar kosningar hafi áður farið fram með mjög svipuðu sniði. Íbúar fá að deila niður krónum í verkefni sem hafa verið fyrirfram ákveðin.  Í mörgum hverfum eru tillögurnar samt svo fáar að fáar, að um fátt er að velja en þær tillögur sem eru í boði. Þetta er hið mikla átak í íbúalýðræði.

   Það er auðvitað jákvætt að íbúar fái að ákveða um framkvæmdir í eigin hverfum, en þegar kemur að stóru málunum er langt frá því að það sé neitt íbúalýðræði í borginni.  Það er raunveruleikinn varðandi íbúalýðræðið, þetta er  fyrst og fremst sýndarmennska.

   Samfélagsmiðlarnir

    Skrýtnar árásir feminista

    Fyrirtækið Verkís hlaut á dögunum gullmerki jafnlaunakönnunar PWC, þar sem kom í ljós að launamunur á milli kynja var eingöngu 2%. Maður hefði haldið að það væri eðlilegt að femínistar (sem og aðrir) fögnuðu þessum góðu fréttum um fyrirtæki sem hefur staðið svo vel í að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu.

    En nei, Drífu Snædal, tekst með ótrúlegum baunatalningum að snúa þessu algjörlega á haus. Í stað þess að fagna þessu, þá horfir hún til þess að það eru fleiri konur sem eru með launalægri stöður en karlar.

    Er það virkilega það sem þetta gengur út á? Er það fyrirtækinu að kenna að áratugum saman útskrifuðust fleiri karlkyns verkfræðingar en kvenkyns? Þegar ég skráði mig í verkfræði voru ca. 17% nemenda konur, síðan hefur þetta breyst og áhugi kvenna á verkfræði hefur aukist. Væri ekki rétt að fagna því? Ég veit fyrir víst að fyrirtækið hefur verið mjög annt um að greiða sömu laun óháð kyni. Er það kannski lausn að mati Drífu að gera ekkert úr 5 ára háskólanámi verkfræðinga, og greiða það sama og til ómenntaðara starfsmanna? Það hljómar líklega ekkert vel, ef staðan væri þannig að fyrirtæki væri að greiða ómenntuðum karlmönnum sömu laun og konum með 5 ára háskólanám að baki.

    Ég hef oft í gegnum tíðina gagnrýnt að því er ég tel á málefnalegan hátt svona málflutning, en oftar en ekki verið fyrir vikið settur í hóp með “dónaköllum” og öðrum sem finnst töff að tala illa um konur. Að mínu mati hefur það verið til marks um öfgana í þessari umræðu að ekki megi gangrýna, þá sem eru að gangrýna á þennan máta án þess að vera sjálfur stimplaður öfgamaður. Það er ansi mikið til í orðum Helga Jean, þar sem hann veltir fyrir sér hvort femínistar eigi ekki að horfa til Gay-pride í baráttuaðferðum sínum.

    Það er alveg sama hvernig á það er litið, þá botna ég ekkert í því að eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur staðið sig best í að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu, skuli samt fordæmt. Hvað með að ráðast frekar á þau fyrirtæki sem standa sig ekki svona vel? Væri það ekki góð byrjun?

    Samfélagsmiðlarnir

     Að stjórna mótmælendum

     Það hefur verið merkilegt uppnám vegna viðtals við Geir Jón í Sprengisandi í morgun. Ég hlustaði á viðtalið í morgun og brást ekki við á sama hátt og þeir sem hafa nú farið hamförum á netinu. Þetta hefur einfaldlega verið í umræðunni lengi og þingmenn úr hópi VG hafa verið nafngreindir í þessu samhengi.

     Í umræðunni hafa menn gert rosalega mikið vegna þess að hann á að hafa sagt að þingmenn hafi stjórnað mótmælendum. Hann sagði aldrei í viðtalinu að þingmenn hafi stjórnað mótmælendum eins og strengjabrúðum eða gefið skipanir. Hvernig hefði það verið hægt? Gjallarhorn? HópSMS? Hann var hins vegar spurður út í hvort hóp mótmælenda hafi verið stjórnað og játti því (svona gróflega eftir minni). Það hefði mátt lýsa þessu á annan hátt og skýrari.

     Nú hefur Ragnar Þór (Maurild) komið fram og lýst símtali, sem er efnislega á sama hátt og þær sögur sem hafa verið í gangi:

     “Þegar Kryddsíldarþátturinn alræmdi var úr sögunni vegna ofsalegra mótmæla var hópur ungra stráka mjög uppivöðslusamur og löngu eftir að mestur vindur var úr mótmælunum ráfuðu þeir fram og til baka eins og þeir væru að leita að besta staðnum til að mótmæla. Stundum voru þeir við Austurvöll, stundum í Lækjargötu og stundum í portinu aftan við Borgina.

     Ég sá einn þeirra slíta símtali og snúa sér að hinum og segja: „Þetta var Steingrímur. Hann segir að þau séu farin.“ Framhald samtalsins var á þá leið að það væri tilgangslaust að mótmæla áfram fyrst búið væri að lauma liðinu burt.“

     Þarna er nákvæmlega dæmi um hvernig þessi stjórnun fór fram, einfaldlega með því að láta í té réttar upplýsingar og þótt ekki hafi verið um skipanir að ræða voru þetta skilaboð sem breyttu hegðun, framlengdu mótmælin og gerðu mótmælendum kleift að vera einbeittari í baráttu sinni. Þetta voru heldur ekki upplýsingar sem menn þurftu að dreifa, það er nóg að einn hafi fengið upplýsingarar og vinna eftir þeim.

     Það hefur enginn svo ég hafi heyrt fullyrt að þessi mótmæli hafi verið skipulögð af stjórnmálaöflum, fólk fór þarna vegna reiði. Reiðin sem var þarna var ekki sprottinn vegna skipanna stjórnamálamanna eða stjórnað af stjórnmálamönnum. Hún var raunveruleg. Stjórnmálamenn geta ekki stjórnað slíkum tilfinningum hjá fólki, þótt hægt að sé að ýta undir þær. Það fólk sem veitti þessar upplýsingar, situr nú hinum megin við borðið og finnur sjálft fyrir reiði almennings. Ég hugsa að margir sem stóðu þarna og börðust fyrir Nýja-Íslandi, velti nú fyrir sér hvert Ísland er komið í dag. Þetta fólk ætlaði að breyta hlutum en eftir sitja innihaldslausir frasar eins og skjaldborg um heimilin og norræn velferðarstjórn. Allur kraftur þessarar stjórnar hefur farið í innbyrðis deilur, þjóðin hefur þurft að horfa upp á 27 líf þessara stjórnar brenna upp eitt af öðru. Lítið hefur verið um aðrar fréttir en um deilurnar. Á meðan brenna heimilin.

     Spurningin er bara hvenær við fáum aðra “byltingu” og þá jafnvel með enn verri afleiðingum. Í Búsáhaldarbylgtingunni var fólk fyrst og fremst reitt, afleiðingar hrunsins voru ekki komnar fram. Í dag eru margir búnir að vera atvinnulausir í lengri tíma, þau greiðsluúrræði sem hafa verið í boði eru senn á þrotum.  Að því er virðist er eina fólkið sem hefur orðið fyrir barðinu á þessu er almenningur, á meðan við sjáum lítið af aðgerðum gegn raunverulegum sökudólgum. Enn sem komið er, þá er eini maðurinn sem hefur verið dæmdur í fangelsi, maður sem forðaði eigin peningum frá því að verða að engu. Hann hins vegar olli ekki hruninu frekar en ég.

     Ég er alla vegana hræddur við afleiðingar ef það koma upp önnur mótmæli, ég er hræddur þegar ég les svona frásagnir og vona að menn hætti að grjóthalda í stólana, bara til að halda í völdin og fari að vinna þá vinnu sem menn voru kosnir til að gera.  Fólk er komið með nóg af innihaldslausu glamri og talnaleikfimi, 10% af engu er ekki neitt og hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun. Fólk vill sjá alvöru breytingar.

     Samfélagsmiðlarnir

      Stóra Evróvision málið

      Ég heyrði um helgina að Íslendingar væru með “Ambulance Chasers” þjóðarsál (og einnig fjölmiðlar), (sem er hugtak um lögfræðinga sem elta sjúkrabíla í von um lögsókn – sjúkrabílaeltir gæti verið íslenskan?) þar sem menn eltu bara þau mál sem væru heit þann daginn en svo væru þau bara gleymd. Það væri því málið ef þú lendir í fjölmiðlaumræðunni að þrauka bara í nokkra daga á meðan á óviðrið gengur yfir og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist.

      Mér var hugsað til þessa í gær, þegar allt ætlaði um koll að keyra á Facebook, á blogginu og á helstu kaffistofum landsins. Það var ekki út af:

      • Stöðu lífeyrissjóðanna, hvernig haldið hefur verið á málum á þeim bænum og að það hefur enginn sagt af sér af þeim sem stjórnuðu sjóðunum fyrir hrun. Þó er traust á sjóðunum við frostmark og ég er viss um að margir trúi því að þeir fái ekki brot af því sem þeir borga í þessa sjóði þegar til eftirlauna kemur.
      • Matvælaeftirliti landsins, sem virðist vera í molum. Þrátt fyrir risa skandal sagði enginn af sér. Matvælaframleiðendur réttu svo þjóðinni miðju puttann. Sem betur fer var bara um að ræða “saklaust” iðnaðarsalt. Hvað ef um hefði verið að ræða svipað tilfelli og í Þýskalandi í fyrra? Miðað við þetta er ekki ástæða til bjartsýni.
      • Læknar virðast geta sett hvaða drasl sem er í fólk, án þess að það sé virkt eftirlit. Þegar leitað er upplýsinga þá virðast þeir getað neitað að gefa upplýsingar um hvaða sjúklingar hafa fengið hvaða dót eða hafa einfaldlega ekki upplýsingar um það.
      • Eignir heimilanna brenna upp, og fátt bendir til annars en að þær haldi áfram að brenna upp.
      • Gjaldþrota fyrirtæki dúkka upp með nýjum kennitölum og skilja eftir sig tug-hundruða milljóna kröfur. Samt eru sömu eigendur sem eiga þessi nýju fyrirtækin.

      Það var ekkert af þessum atriðum sem gerði allt vitlaust, heldur var það vegna þess að atkvæði dómnefndar í Eurovision var á annan veg en þjóðarinnar.

      Samfélagsmiðlarnir

       Tilbúnir Facebook einstaklingar

       Um daginn var umfjöllun í fjölmiðlum um einstaklinga sem eru búnir til á facebook til þess að koma vörum á markað. Ég hef svo sem litar áhyggjur af slíkum einstaklingum. Fataborg Netverslun eða Glæsiföt geta pundað út áróðri um að kaupa af þeim föt. Þessir tilbúnu einstaklingar trufla mig ekkert sérstaklega, enda veit fólk nú alveg á hverju það á von ef það gerist vinur fataverslunar.

       Ég hef minna haft áhyggjur af þessum einstaklingum og þeim mun meira af þeim gervimönnum og gervikonum sem dúkka upp eins og þeir séu alvöur einstaklingar. Eiga fullt af vinum, skrifa reglulega statusa og hegða sér eins og um alvöru einstakling væri að ræða. Út á við líta þeir út fyrir að vera alvöru einstaklingar en eru ekki að markaðsetja neinar ákveðnar vörur. Eini tilgangurinn virðist vera að safna upplýsingum.

       Þannig er t.d. þessi vinur ansi margra Sjálfstæðismanna og við fyrstu sýn virðist hann vera ansi ákafur Sjálfstæðismaður. Reyndar svo mikill að hann talar eiginlega bara um flokkinn. Þegar mér barst vinabeiðni frá honum, kemur í ljós að hann á 50 vini, sem eiga það margir sameiginlegt að vera þekkt nöfn í Sjálfstæðisflokknum.

       Nú er það svo í stórum flokk eins og Sjálfstæðisflokknum, að maður hittir margt fólk á fundum og öðrum viðburðum. Það er mikið af andlitum og maður talar við fólk, það er því ekki ólíklegt að einstaklingur eins og þessi hafi verið einn þeirra. Þegar hann á svo 50 aðra Sjálfstæðismenn sem vini er ekkert ólíklegt að maður samþykki hann sem vin og telji sér trú um að maður hafi hitt hann á einum eða öðrum fundinum.

       . En þegar maður skoðar betur myndina, kemur fyrst í ljos að það er eins og hann sé með eitthvað yfir munninum á sér og þegar maður skoðar þetta enn betur kemur í ljós vatnsmerki sem inniheldur stafina 123RF. Google getur svo hjálpað manni að finna uppruna myndarinnar, leitartexti myndarinnar er: “fine confident old man portrait”.

       Spurningin er því frekar hvað vilja þessir gervimenn upp á dekk? Ég hef fengið fjöldann allan af slíkum beiðnum, oftast eru þeir mjög augljósir en í þessu tilfelli er t.d. verið að hafa fyrir því að setja inn statusa. Hvaða upplýsingar eru þeir sem standa að baki þessum gervimönnum að safna?

       Samfélagsmiðlarnir

        Tími til uppgjörs?

        Ég sé það á Eyjunni að einhverjir vilja skipta út forystu í Sjálfstæðisflokknum (ekkert nafn er við pistilinn) og jafnvel þingmenn flokksins. Ýmsum mjög áhugaverðum spurningum er varpað fram og meðal annars um forystu flokksins. Frá hruni hefur tvisvar verið kosið um forystuna, einu sinni verið kosið um þingmenn flokksins og einu sinni um bæjarfulltrúa. Það hefur því ekki skort á tækifæri til þess að skipta út í forystuliði flokksins. Niðurstaða lýðræðislegra ákvarðanna er hins vegar sú að flokksmenn hafa ákveðið þessa forystu.

        Sjálfum hefur mér fundist að Bjarni Benediktsson hafi vaxið sem formaður flokksins og þótt hann hafi ekki tekið allar ákvarðanir í samræmi við meirihluta vilja flokksmanna hefur það sýnt að hann er tilbúinn að synda gegn straumnum (ég hef ekki alltaf verið honum sammála). Hann þarf svo að svara fyrir sínar ákvarðanir og hefur gert það meðal annars á tugum funda sem hann fór ásamt varaformanni flokksins um landið rétt eftir páska. Hann mun væntanlega einnig svara fyrir þær ákvarðanir sem hann hefur tekið á landsfundi í nóvember.

        Það er svo landsfundarfulltrúa að ákveða hvort þau svör séu fullnægjandi.

        Varðandi þingmenn flokksins, þá er það ekkert leyndarmál að ég vonaðist eftir mun meiri endurnýjun en raunin varð. Þetta var hins vegar sú lýðræðislega aðferð sem notuð var við val á fulltrúum á lista og lítið við því að segja. Séu menn ósáttir við þá niðurröðun sem varð, þá eru í mestalagi 2 ár þangað til menn hafa tækifæri til þess að velja aftur.

        Á landsfundinum í nóvember verður ný forysta kosin í 3 skipti frá hruni, ég veit ekki til þess að nokkur flokkur hafi jafn oft gefið tækifæri til þess að skipta út forystunni. Tækifæri til uppgjörs hafa því verið næg innan flokksins. Sé þörf á frekara uppgjöri innan flokksins, þá mun það uppgjör alla vega ekki fara fram með því að gamlir formenn taki við kyndlinum.

        Samfélagsmiðlarnir

         Enn þrengt að ferðagjaldeyrinum

         Enn heldur er þróunin áfram í átt að draumaríki Árna Páls og félaga að “sósíalistaríkinu Ísland”. Nú á enn frekar að þrengja að reglum um ferðagjaldeyri. Þær reglur sem nú eru í gildi gefa reyndar ekki stórt svigrúm. Fólk getur keypt ferðagjaldeyri 4 vikum fyrir brottför gegn framvísun farseðils og eingöngu í sínum eigin viðskiptabanka. Áður höfðu þessar reglur verið verulega þrengdar og upphæðin lækkuð úr 500 þúsund.

         Hver skildi nú vera þörfin að herða þessar reglur? Ætli það sé eitthvað að hafa verulegar áhyggjur af þótt einhverjir Íslendingar kaupi sér gjaldeyri, sem þeir svo nýta sér ekki? Upphæðin 350 þúsund gefur ekki beint tilefni til stórfeldra svika.

         Einhverjir hefðu sagt að þessar reglur væru þegar alltof strangar og að það væri frekar tímabært að rýmka þessar reglur en að þrengja þær, en á “sósíalistaríkinu Íslandi” er rétt að auka enn frekar eftirlitið. Í nýju reglunum segir:

         1. Að gjaldeyririnn sé ætlaður til að greiða kostnað vegna ferðalaga erlendis. Við kaup eða úttekt skal einstaklingur sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvittunar fyrir greiðslu á ferð sinni sem fyrirhuguð er innan fjögurra vikna. Þegar um er að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil skal sýnt fram á ferðalag með framvísun vaktaskipulags eða öðrum sannanlegum hætti.
         2. Að ekki sé keyptur eða tekinn út erlendur gjaldeyrir í reiðufé fyrir upphæð sem samsvarar meira en 350.000 kr. á kaup- eða úttektardegi fyrir hvern einstakling skv. 1. tölul. í hverjum almanaksmánuði.
         3. Að sýnt sé fram á að einstaklingur, eða forráðamaður hans ef um ólögráða einstakling er að ræða, sé eigandi fjármunanna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn, eða gjaldeyrisreikningsins sem tekið er út af.
         4. Að einstaklingurinn sem tilgreindur var við kaup eða úttekt gjaldeyrisins fari sjálfur með féð úr landi.

         Svo segir: Þeim hluta gjaldeyris sem keyptur er með vísan í 1.–4. tölul. 2. mgr. og ekki er nýttur í fyrirhugaðri ferð skv. 1. tölul. skal skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá lokum ferðar.

         Viðbótin eru fyrst og fremst í lið 3 og 4. Nú þurfa ferðalangar að á sýna fram á að þeir séu eigendur fjármunanna sem þeir nota til gjaldeyriskaupa. Ég veit svo sem ekki hvernig ég á að sýna fram á að ég eigi peninginn sem er inn á reikningum mínum. Ef ég er að fara til útlanda verður gerð könnun á því hvort einhver hafi nýlega lagt fé inn á reikninginn minn? Má ég fá yfirdrátt til að greiða fyrir gjaldeyrinn? Ég er svo sannarlega ekki eigandi þeirra fjármuna. Hvernig verður kannað hvort að ég fari út með gjaldeyrinn sem ég keypti? Þarf ég að fara á eitthvað borð í Keflavík og leyfa þeim að telja í buddunni minni? Verða kannski gerðar rassíur í Keflavík og talið í buddum allra íslenskra ferðalanga?

         Svo er þetta auðvitað áhugavert með að maður eigi að skila öllum umfram gjaldeyri. Hvernig er staðið að því eftirliti? Á maður að sýna nótur fyrir því sem maður verslaði erlendis ef maður er spurður?

         Enn sem komið er getur fólk tekið út gjaldeyri erlendis út á greiðslukort. Miðað við þróunina má allt eins vænta að þessi “leki” verði næst stöðvaður eða svipaðar takmarkanir teknar upp. Nú þegar er ljóst að það er eitthvað fólk sem situr í Seðlabankanum og fer yfir í greiðslukortareikninga fólks. Í framhaldi má velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tímin á að setja setja upp skömmtunarkerfi á Íslandi. Ef ég gerist svo gíraður að kaupa mér erlenda vöru í staðin fyrir íslenska kemur það á sama stað niður gagnvart gjaldeyrisforðaum, og ef ég eyði kaupi mér gjaldeyri og eyði í útlöndum. Í báðum tilfellum er verið að nota dýrmætan gjaldeyri.

         Svona í ljósi þess hvað það á að gera fólki svo erfitt um vik, er ekki bara einfaldara að banna utanlandsferðir og taka upp skömmtunarkerfi? Þá kæmi í veg fyrir að fólk eyði dýrmætum gjaldeyri í eitthvað rugl eins og að kaupa sér bjór á Strikinu eða nýtt sjónvarp.

         p.s. það væri áhugavert að sjá frá ráðherranum hversu oft hann hefur skilað þeim gjaldeyri sem hann hefur keypt á fjölmörgum ferðum sínum erlendis.  Hann hlýtur að hafa þetta allt á hreinu og vera með kvittanir fyrir sínum innkaupum.

         Samfélagsmiðlarnir

          Eyðimerkurganga Besta og Samfó

          Ég las viðtalið við Jón Gnarr sem var í DV um helgina. Þetta er merkilegt viðtal og markaði algjöra stefnubreytingu hjá flokknum ásamt því að varpa ljósi á það sem nú er að gerast í borginni. Jón hefur alla tíð fullyrt að Besti flokkurinn ætli sér stærri hlutinn og Reykjavík hafi bara verið grín. Ólíkt því sem var á fundinum sem haldinn var í HR rétt fyrir kosningar, þar sem hann sagðist hættur, þá fylgdi ekkert DJÓK á eftir þeim orðum að Besti flokkurinn væri ekki til. Hann er bara djók sem náði aðeins of langt. Nú á ekkert að fara í neina frekari landvinninga. Jón segist vera ánægður sem borgarstjóri, en þó skín í gegn að honum finnst þetta vera hundleiðinlegt.

          Um leið þá skiptir engu máli hvað hann gerir. Hann þarf ekki að svara fyrir gjörðir sínar eftir 4 ár. Eitt stórt grín í 4 ár, þar sem hann fer fram því sem honum langar til að gera. Skítt verið með borgarbúa, það þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af þeim, þeir lofuðu hvort sem er að standa við ekkert sem þeir lofuðu.

          Samfylkingin er kannski annað mál. Þeir ætla væntanlega að bjóða sig fram eftir 4 ár. Þeir vaða samt áfram í eyðimerkurgöngu Besta flokksins, sama hvað gengur á. Þær breytingar sem þeir eru nú að ráðast í nær til tæplega 8 þúsund barna. Mér sýnast vera komnar um 25 ályktanir gegn þessum breytingum meðal annars frá starfsmannafélögum og foreldrum. Það virðist vera alveg sama hvað gengur á, það á að halda áfram með þessar breytingar.

          Maður er hreint gáttaður á þessu og veltir því fyrir sér hvort Samfylkingin ætli að fara sömu leið og Framsókn í Borginni og við eigum eftir að fá Einar hressa, til að fara í sjósund til að vekja athygli. Með þessari framgöngu efast ég um að formaður menntaráðs eigi eftir að njóta mikilla vinsælda.

          Samfélagsmiðlarnir

           Opnuauglýsing SUS

           AMX virðist telja sig vera málgang hins almenna félaga Sjálfstæðisflokksins og tjáir sig sem slíkur. Ég efast reyndar ekki um að AMX menn eru ágætlega tengdir innan flokksins, en grunar að það sé fyrst og fremst innan ákveðins hóps. Sú skoðun sem þar er endurómuð er að minnsta kosti sjaldan sú skoðun sem ég heyri hjá öðrum almennum Sjálfstæðismönnum sem eru í kringum mig.

           Blaðaauglýsing SUS

           Blaðaauglýsing SUS


           Í gær fögnuðu þeir blaðaauglýsingu SUS og segja meðal annars:

           “Ólafur Örn Nielsen, formaður SUS, er nú talinn hafa skapað sér sterka stöðu innan flokksins og sé kominn í hóp mestu áhrifamanna.”

           Formaður SUS hefur reyndar alltaf verið á meðal áhrifamanna innan flokksins, hefð hefur verið fyrir því að formaður SUS hafi rétt til setu á þingflokksfundum og er sjálfkjörin í miðstjórn (og eigi þar með sæti í flokksráði). Það hefur því ekki breyst við birtingu þessarar auglýsingar.

           AMX menn halda áfram:

           “Í haust er t.d. landsfundur og ekki vildu smáfuglarnir vera í gervi Bjarna Benediktssonar á þeim fundi.”

           Í ljósi auglýsingarinnar er rétt að spyrja hvort formaður SUS hafi beitt sér gegn Icesave á þingflokksfundum í aðdraganda þessarar ákvörðunar? Það hefur lengi þótt einkenna flokkinn að takast á innan flokksins en fara ekki með málin í fjölmiðla. Hefur verið leitað leiða innan flokksins áður en farið var með málið í fjölmiðla? Í skipulagsreglum flokksins um miðstjórn segir:

           “Framkvæmdastjórn flokksins er í höndum miðstjórnar. Hún hefur úrskurðarvald um allar framkvæmdir á vegum flokksins, hefur umráð eigna hans og gætir þess, að skipulagsreglum hans sé fylgt” og svo “Ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar eða flokksráðs um pólitíska afstöðu flokksins og ekki er unnt að koma því við, að þessir aðilar taki afstöðu til mála, sem skyndilega ber að höndum skal miðstjórn fjalla um þau og getur hún þá markað hina pólitísku afstöðu flokksins.”

           Hefur eitthvað verið kært til miðstjórnar, hefur miðstjórn verið beðin um að kanna hvort skipulagsreglum flokksins hafi verið fylgt í málinu eða hefur verið kannað hvort miðstjórn hafi fjallað um málið?

           Að lokum þá er það flokksráðið sem menn gætu leitað til en það “markar stjórnmálastefnu flokksins, ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar”. Ólíkt landsfundi sem ákveðin af miðstjórn, þá gildir um flokksráðfundi:

           “Flokksráð skal boðað til fundar eigi sjaldnar en einu sinni á ári við upphaf hvers reglulegs Alþingis eða oftar ef formanni þykir ástæða til eða ef 20 flokksráðsmenn eða fleiri óska þess skriflega, að ráðið sé kvatt saman til fundar.”

           Um leið og AMX talar digurbarkalega um næsta landsfund spyr maður sig af hverju þeir vilja bíða hans? Getur verið að ástæðan sé sú að þeir vita að andstaðan gegn Icesave sé ekki jafn mikil innan flokksins eins og þeir vilja láta?

           Samfélagsmiðlarnir

            Undirskriftarsöfnun sem skráir engar kennitölur

            Ég tók mig til og gerði síðu sem lítur út fyrir að vera undirskriftasöfnun en skráir í rauninni ekki neitt. Eina sem síðan gerir er að birta teljara, sem er í raun php-skrifta sem telur bara gesti og margfaldar þá upp (1-5). Svona til þess að vera ekki með neitt rugl, þá er það misjafnt eftir því á hvaða tíma dags fólk heimsækir síðuna hversu marga hann telur.

            Ég er ekki að gera þetta á móti neinum og er bara gert af gamni, eftir umræðu sem var hér fyrr í dag, ásamt því að hafa verið í umræðu á ýmsum bloggum í dag. Ég ákvað að henda þessu upp. Ég held reyndar að það sé þörf umræða að taka, hvernig svona undirskriftarsafnanir eiga að vera til þess að vera teknar trúanlegar.

            Það að lofa að bera kennitölurnar saman við þjóðskrá hjálpar ekki neitt. Ég gæti hæglega gert það á þessari síðu en hver ætti að staðfesta að ég hafi ekki bara valið kenntitölur inn á listann af handahófi? Ætli forsetinn myndi gera slembiúrtak? Ég tala nú ekki um ef það á ekki einu sinni að afhenda útprentað eintak.

            Að lokum svo að það sé alveg á hreinu, þá er ég ekki að saka kjósum.is um neitt! Ég er hins vegar að benda á hættunni, þegar engin nöfn eru birt og ekki er möguleiki á að staðfesta upplýsingar um þá einstaklinga sem eru skráðir á síðunni. Hvernig orðaði hæstiréttur þetta aftur þegar hann ógilti stjórnlagaþingið? Þetta er ekki spurning um hvort misbeiting hafi farið fram, heldur bara að það sé möguleikinn á því.

            Best að taka það fram að það tók ekki nema nokkrar mínútur að gera þetta. Ég er búinn að vera margfalt lengur að skrifa þennan texta. Ég sótti útlitið hérna og skrifaði svo mjög einfalda skriftu sem les og vistar tölu í textaskrá og birtir hana ásamt því að bæta við hana. Sjálfur kóðinn er um 10 línur.

            Hægt er að nálgast síðuna hérna (teljarinn byrjaði í 10 þúsund).

            Samfélagsmiðlarnir

             Kjósum.is: Áttu árásirnar sér stað?

             Menn velta fyrir sér nú hvort ráðist hafi verið á heimasíðuna Kjósum.is. Ég efast um það, ég tek það þó fram að það getur samt verið. Ég sé hins vegar augljósa galla á síðunni og hvernig varist var þessum árásum.

             Það verður fróðlegt að sjá niðurstöður lögreglurannsóknarinnar. Eins og áður þá trúi ég því varla að það komi kæra. Ég hef ekki séð menn jafn heita með því að þessir ömurlegu samningar verði samþykktir eins og þeir sem hafa verið á móti því.

             Mér sýnist að þeir séu að keyra síðuna dýnamískt í staðin fyrir að hafa síðuna statíska. Það er að það er verið að tengjast við gagnagrunn í hvert skipti sem einhver fer inn á síðuna. Það er ekki bara verið að sækja úr gagnagrunninum efninið sem er á síðunni, heldur er líka verið að sækja í rauntíma hversu margir hafa skrifað undir. Slíkt hvetur menn til þess að fylgjast með og ýta reglulega á refresh takkann. Þetta væri einfalt að laga með því að setja upp síðu sem er ekki að sækja gögn beint úr gagnagrunni, og jafnvel væri teljari sem sýndi hvenær upplýsingar um fjölda væru uppfærðar (t.d. á 15 – 30 mín fresti).

             Síðan er hýst hjá vefþjónustunni 1984, sem er stórt og öflugt fyrirtæki. Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að þeir geti lokað á traffík sem væri að gera árás á síðuna. Hafi árásin átt sér stað á Íslandi er einfalt að loka fyrir þá traffík (og nappa kauða) og ef hún hefur átt uppruna sinn erlendis frá botnetum er varla annað að gera en að leyfa bara innlenda traffík. Varla margir að koma að utan til að skrá sig?

             Auðvitað er það áróðurslega miklu betra að segja frá því að verið sé að gera árás á síðuna en að hún hafi ekki verið hönnuð rétt. Ég tek það þó fram að það er alveg mögulegt að einhverjum aðilum hafi dottið í hug að ráðast á síðunni. Mér finnst það bara ólíklegt.

             Teitur Atlason er líklega eini maðurinn sem hefur gert árás á síðuna, hann notaði kennitölu skriftu sem Steinar hafði búið til. (Ég “stal” hugmyndinni (en þó ekki kóðanum fyrir utan formið)). Ég hef áður sagt að mér finnist þetta best útfærða undirskriftarsöfnun sem framkvæmd hefur verið (tæknilega), þar sem t.d. er gert vartölupróf. Vartölupróf tekur auðvitað ekki á því þegar búið er að búa til kennitölur eins og Teitur gerir, það er einfaldlega aldrei hægt að koma í veg fyrir slíkt, jafnvel þótt menn væru með þjóðskrá undirliggjandi er lítið mál að fylla inn kennitölur.

             Teitur var með þá hugmynd að fólk þyrfti að staðfesta með tölvupósti. Ég veit ekki hvaða gagn í veröldinni það ætti að gera. Ég get skráð hvern sem er og sett eitthvað netfang sem ég bý til. Þar með er gagnið farið og búið að hefta mjög söfnunina.

             Augljósasti gallinn við þessa söfnun er að það er ekki með nokkru móti hægt að staðfesta að þeir einstaklingar sem eru sagðir vera skráðir séu það í raun og veru. Hvaða fólk er þetta? Hvernig á að ganga úr skugga að það séu raunverulega yfir 30 þúsund manns búnir að skrá sig? Um leið og nöfn eru ekki birt er auðvelt að koma fram með samsæriskenningar eins og Teitur kom með.

             Það sem er verra, ég sé ekki að það eigi að afhenda þessa undirskriftasöfnun. Hún á víst bara að vera í gangi þangað til forsetinn skrifar eða skrifar ekki undir.

             Samfélagsmiðlarnir

              Undirskriftarsafnanir

              Nú er búið að eyða undirskriftarsöfnuninni sem var sett til höfuðs kjosum.is. Í fréttum les maður að það hafi verið beðist afsökunar á því að henni hafi verið eytt af hýsingarfyrirtækinu. Ég sá ekkert um að það ætti að hefjast handa aftur, þrátt fyrir að hún hafi eingöngu verið starfandi í 20 klukkustundir og hafi fengið 1500 undirskriftir.

              Af hverju byrja þeir ekki aftur?

              Nú er erfitt að staðfesta þá afsökun sem þeir segjast hafa fengið frá fyrirtækinu sem hýsti könnunina en getur verið að þetta hafi bara ekki verið að ganga eins vel og menn vonuðust til. Ég spyr (án þess að fullyrða neitt) hvort þeir hafi eytt henni sjálfir? 1500 undirskriftir á tæplega sólarhring er ekki neitt. Ég hef séð öflugri undirskriftir (eða fb hvatningar) um hvort einhver eigi að lita á sér hárið en þetta.

              Það er miklu betra í umræðunni að segja að síðan hafi verið tekin niður en að viðurkenna ótrúlega litla þáttöku.

              Hin undirskriftarsöfnunin gengur nú ekki mikið betur. Svona miðað við þá reiði sem á að vera, þá finnst mér þetta ekki mjög mikið. Ég hvorki fyrr né síðar sé meiri áróður fyrir neinni undirskriftarsöfnun. Ég hef aldrei séð jafn marga pósta link á þessu könnun á Facebook veginn hjá sér (og það oft á dag). Sé litið á gáttina eru með reglulega “non-sense” bloggfærslur um hversu margir hafa skrifað undir (ég þarf ekki að fá mörg blogg um það, það stendur á síðunni). Þegar ég hlusta á Útvarp Sögu er undantekning að ekki sé verið að hvetja fólk til að kjósa, í morgun var skrifstofa stöðvarinnar meira að segja boðin fram til að hjálpa tölvulausum manni.

              Ég held að þessi undirskriftarsöfnun hafi að minnsta kosti ekki farið fram hjá neinum, sem ekki býr í helli.

              Þeir mega þó eiga það að þetta er líklega best útfærða söfnun sem gerð hefur verið á undanförnum árum. Ég man ekki eftir því í nýlegu dæmi þar sem vartölupróf gert á kennitölunni (javascript kóðinn). Svo birta þeir upplýsingar um að þeir hafi kært einn til lögreglu sem á að hafa falsa kennitölu. Nokkuð sem fælir mestu vitleysingana frá. Ég geri ráð fyrir að Andrés Önd, Jóhanna og Steingrímur verði ekki á listum hjá þeim, alveg fyrir utan hvað það er góð kynning sem var send á alla fjölmiðla þegar þetta var gert. Ég ætla reyndar að efast um að þetta skili af sér kæru (ef þetta var þá raunverulega kært), forvarnargildið er samt ljóst.

              Samfélagsmiðlarnir

               Nýir eigendur Eyjunnar

               Ég les það hérna á Eyjunni eins og aðrir að “Framsóknar mafían” og útrásarvíkingarnir eigi orðið Eyjuna, þar að auki sé kominn Samfylkingar ritstjóri.

               Það er bara hið besta mál.

               Potturinn.com er sjálfstæður miðill, sem hvorki hýstur af Eyjunni né með aðrar tengingu við Eyjuna en að pistlar af Pottinum birtast á forsíðunni. Ég var í hópi þeirra sem byrjuðu á Eyjunni á sínum tíma og hef á þeim tíma bara einu sinni fengið nótur frá ritstjóra. Þær voru ekki mikilfenglegar, en Pétri Gunnarsyni, sem var fyrsti ritstjóri Eyjunnar, þótti umfjöllun mín um bjór frekar leiðinlegar. Eini annar ritstjórinn sem ég hef átt samskipti við var Guðmundur Magnússon, en það var að mestu í formi athugasemda og umræður á bloggi Guðmundar.

               Það versta við þessi eigenda og ritstjóra skipti eru áherslubreytingar Eyjunnar. Ég las það að hún eigi að fjalla meira um pólitík. Í sjálfu sér er ekkert slæmt við það, nema að áhugi minn á pólitík er við frostmark um þessar mundir. Þrátt fyrir að taka virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, nú sem fyrr, þá hef ég minna nennt að skrifa um pólitík og meira um þá aðra hluti sem ég hef haft áhuga á eins og tækni.

               Ég ætla þó ekki að segja mig frá Eyjunni, en mun kannski reyna að lauma inn einum og einum pistli um pólitík. Það er víst af nógu að taka þessa dagana og sérstaklega í mínum eigin flokk.

               Samfélagsmiðlarnir

                Grín með áfengisauglýsingar

                ÍsbjörnÍ kringum heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu kom upp töluverð umræða um áfengisauglýsingar hjá RÚV. Bjórinn polarbeer auglýsti þá bjórinn sinn í þættinum.

                Nú hef ég nánast engan áhuga á knattspyrnu og horfði á mjög fáa leiki (og aldrei allan leikinn). Samt sá ég ítrekað þessa auglýsingu þar sem ísbjörninn tróð Vuvuzela lúðrinum upp í ísbjörninn af pirringi. Nokkuð sniðug auglýsing, og eins og aðrar auglýsingar frá þeim, þá eru þeir ganga þær út á að bregðast á (mis) sniðugan hátt við nýlegum atburðum.

                “Auglýsingin var sýnd nokkrum sinnum í þættinum án þess að orðið léttöl kæmi fram”, var sagt í fréttinni um þetta mál. Ég á ótrúlega bágt með að trúa því og held að hún hafi nánast alltaf verið sýnd. Í kjölfar umræðunnar sendi Páll Magnússon “harðorða viðvörun” til Ölgerðarinnar.

                Sú harðorða viðvörðun skilaði sér þannig að bætt var við auglýsinguna smá bút, þar sem kom fram að verið var að auglýsa “Léttöl”. Þar með var málið dautt.

                Það vita auðvitað allir að það er verið að auglýsa bjórinn en ekki léttölið. Sé þetta léttöl til, þá er skrítið að eyða gríðarlegum peningum í vöru sem er ekki verið að selja í búðum. Sem eiginlega þýðir að hér er alls ekki bann við að auglýsa bjór, það þarf bara að hengja smá texta aftan við. Þau viðurlög sem boðið er upp á, brjóti menn lögin eru auðvitað líka það lítil að það skiptir félögin nánast engu máli, 100-200 þúsund króna sektir eru smáaurar í samanburði við mátt auglýsingarinnar sem menn hafa verið sektaðir fyrir.

                Hér heima er ekki leyfilegt að auglýsa lyf. Lyfjafyrirtækin hafa ekki gripið til svipaðra ráða og bjórframleiðendurnir. Svona til samanburðar virðist það vera nóg fyrir þá að setja orðið, “vítamín”, aftast í auglýsingu þar sem verið er að auglýsa verkjalyf. Bara að vöruheitið sé það sama.

                Það hljóta allir að sjá að mikið vantar upp á fyrirkomulagið eins og það er núna. Annað hvort hljóta menn að breyta lögunum og leyfa þessum mönnum bara að auglýsa bjór og setja almennar leikreglur þá í kringum þær auglýsingar eða gera lögin þannig úr garði að menn geta ekki auglýst bjór bara með því að setja smátt letur og segja vöruna vera aðra en hún raunverulega er.

                Samfélagsmiðlarnir

                 Eru spilavíti slæm fyrir orðspor Íslands?

                 SpilavítiÉg las viðtal við Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra á vísi í gær þar sem verið er að fjalla um spilavíti, þar sagði hún:

                 „Ég sé enga ástæðu til þess að breyta lögunum og fara að opna hér spilavíti. Það yrði ekki orðspori Íslands til framdráttar. Ísland hefur upp á margt að bjóða og aðra sérstöðu,” segir Álfheiður sem þykir hugmyndin ekki góð og áréttar að spilafíkn sé alvarlegur sjúkdómur og öllum ljóst hverjar afleiðingar spilafíknar geta orðið.“

                 Nú eru til dæmis bæði spilavíti í Danmörku og Svíþjóð.  Ég hef ekki orðið var við að þessi spilavíti hafi skaðað orðspor þessara landa.

                 Ég sé ýmsar ástæður fyrir því að spilavíti eigi ekki að starfa á Íslandi en hvernig sú starfsemi eigi að skaða orðspor okkar sé ég ekki.  Gat Álfheiður virkilega ekki fundið  betri rök gegn spilavíti en að það skaðaði orðspor okkar Íslendinga?

                 Hitt er annað mál að á Íslandi hafa menn verið með ótrúlegan tvískinnungshátt varðandi spilavíti og fjárhættuspil.  Íslensk góðgerðarsamtök hafa getað rekið spilakassasali, þar sem menn hafa getað tapað aleigunni.  Þegar farið er inn á þessa staði má sjá að þetta eru ekkert annað en vísir af spilavítum.  Það hefur þótt í góðu lagi og stjórnvöld hafa veitt þessu blessun sína.  Meira að segja SÁÁ hefur hluta af tekjum sínum með þátttöku í rekstri spilakassa.    Þeir setja sig nú upp á móti þessari hugmynd, en hversu trúverðugt er það þegar þeir standa sjálfir í stórtækum spilakassarekstri?

                 Ég er ekkert hrifinn af því að fá spilavíti til Íslands, en það er rétt hjá Álfheiði að spilafíkn sé alvarlegur sjúkdómur.  Á sama tíma er samt skrýtið að góðgerðarstofnun sem starfar við það að hjálpa fólki úr þessari fíkn skuli fá drjúgan skildinginn með rekstri sem verður ekki kallaður annað en vísir að spilavítum. Ég hef ekki séð núverandi heilbrigðisráðherra leggjast gegn því eða koma með aðrar lausnir fyrir þessi félög til að afla sér fjár.

                 Hver er annars munurinn á sportbar með 15 spilakössum og spilavíti með spilakössum?  Bara nafnið og að það verða væntanlega spilaborð með alvöru „dílerum“?

                 Samfélagsmiðlarnir

                  Ekki skrökva að sjálfum þér

                  Í dag og á morgun ganga stúdentar við Háskóla Íslands til kosninga. Sjálfur hef ég fylgst með þessum kosninum síðan ég byrjaði í Háskólanum árið 1998 og var virkur í nokkur ár í byrjun háskólagöngu minnar í Vöku en hef lítið sem ekkert komið að þessu síðan.

                  Ég sé að núna er komið nýtt framboð á sjónarsviði sem virðist vera að gera þetta í einhverju gríni, öll plögg sem ég hef séð frá þeim merki um það.

                  Það má sjálfsagt gagnrýna ýmis bólgin loforð hefðbundnum framboðanna, hlutir sem menn þakka sér sem utan aðkomandi aðstæður hafa raunverulega gert en þegar viðkomandi var við völd.

                  Hins vegar má ekki gleyma því að stúdentaráð hefur ansi mikilvægt hlutverk. Þetta eru stærstu hagsmunasamtök háskólanema á Íslandi. Þau hafa í gegnum tíðina haft mesta slagkraftinn til að berjast gegn misvitrum ákvörðunum háskólayfirvalda og stjórnvalda.

                  Þótt við fyrstu sýn mönnum finnist fyndið að kjósa eitthvað grínframboð er ansi hætt við að gamanið kárni eftir kosningar þegar framboðin þurfa að fara að vinna. Það gleymist oft að baki það fólk sem er þarna að störfum leggur ómælda vinnu í að gera Háskólann betri og ljóst að Háskóli Íslands væri ekki sá háskóli sem hann er í dag ef ekki það fólk sem hefur setið í gegnum árin í stúdentaráð hefði ekki verið tilbúið að leggja á sig þessa fórnfúsu vinnu (í báðum stóru hreyfingunum).

                  Ég bið menn því að skrökva ekki að sjálfum sér skoða vel þau málefni og það starf sem menn bjóða fram og kjósa þannig að stúdentaráð verði starfhæft í baráttunni. Líklega hefur sjaldan verið mikilvægara fyrir stúdenta að hafa öflugt stúdentaráð en einmitt á þeim tímum núna þar sem niðurskurðarhnífarnir eru á lofti og vanda þarf vel til þess verks.

                  Helst vildi ég auðvitað að menn kysu Vöku.

                  Samfélagsmiðlarnir

                   Hvernig fékk Dagur 112 fleiri atkvæði en voru talin?

                   Netkosning
                   Hvernig fékk Dagur B. 112 fleiri atkvæði en voru talin?

                   Dagurinn í dag var sannarlega áhugaverður fyrir þá sem hafa áhuga á pólitík. Líklega var spennan mest í Hafnarfirði þar sem eingöngu munaði 2 atkvæðum á milli frambjóðendanna sem vildu leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

                   Það sem var þó áhugaverðast í dag var þó ekki þessi tveggja atkvæða munur í Hafnarfirði heldur virðist Dagur B. Eggertsson hafa fengið 112 fleiri atkvæði en talin voru frá því aðrar tölur birtust þar til lokatölurnar birtust. Dagur var með 1652 atkvæði þegar talin höfðu verið 2212 atkvæði en hins vegar var Dagur með 2208 atkvæði þegar talin höfðu verið 2656 atkvæði.

                   Dagur virðist því hafa fengið 556 atkvæði út úr þeim 444 atkvæðum sem voru talin voru, hann fékk því 112 fleiri atkvæði en voru talin!

                   Hvaða atkvæði voru menn annars að telja? Hvernig telja menn rafræna atkvæðaseðla?

                   Einn galli netkosninga er einmitt að það er enginn seðill sem hægt er að telja eða til að sannreyna að ekki hafi verið um svindl að ræða. Annar galli hefur einnig verið talinn að í rafrænum kosningum birtist niðurstaðan strax um leið og kosningu líkur og þá eru engar spennandi kosningavökur. Það tæki Huawei símann minn nokkrar sekúndur telja þessi 2.656 atkvæði og birta niðurstöðurnar, hvað þá netþjónarnir sem kerfi Samfylkingarinnar keyra á. Niðurstöðurnar voru því ljósar um leið og kosningu lauk en ekki mörgum klukkutímum síðar.

                   Annað hvort er því hér á ferðinni kosningasvindl, til að bæta niðurstöður oddvitans eða það sem er líklegra að spunameistarar Samfylkingarinnar voru að reyna að búa til spennu með því að búa til einhverjar millitölur og víxla sætum neðarlega á lista hjá velþekktum frambjóðendum og auka þannig þá fjölmiðlaathygli sem prófkjörið fær.

                   Annað sem vekur athygli í þessu prófkjöri Samfylkingarinnar er ótrúlega léleg þátttaka. Það tóku tæplega þrisvar sinnum fleiri þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fór fram fyrir viku. Meira að segja þegar hlutfall á kjörskrá er skoðað er þetta léleg þátttaka, en það voru 33,7% af kjörskrá sem tók þátt hjá Samfylkingunni en 36,4% hjá Sjálfstæðisflokknum. Munurinn er samt sá að Samfylkingin var með netkosningu. Samfylkingarmenn gátu því kosið í símanum sínum eða hvar sem þeir komust á netið á meðan Sjálfstæðismenn þurftu að koma sér á kjörstað. Í ljósi umræðu eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins verður fróðlegt að heyra hvort fjölmiðlamenn eiga eftir að velta fyrir sér væntanlegum árangri hjá Samfylkingunni í vor í ljósi lélegrar þátttöku í prófkjörinu.

                   Skjámynd af lokatölum
                   Skjámynd af millitölum

                   Samfélagsmiðlarnir