Námskeiðsdagar í Háskóla Íslands

Ég var mjög ánægður að sjá Námskeiðsdaga hjá Stúdentaráði. Ég var með örnámskeið í því hvernig á að halda kynningar og lagði sérstaka áherslu á kynningu á tölfræðilegum niðurstöðum. Það var meðlimur í Vöku sem hafði samband og bað mig um að gera þetta.

Þetta hefur lengi verið áhugamál hjá mér og oft rætt við ýmsa varðandi birtingu á tölfræðilegum niðurstöðum og ekki síst í kynningum. Datamarket hafa verið frumkvöðlar í því að taka safn af gögnum og búa til skiljanlegar niðurstöður. Niðurstöður sem fólk skilur og á auðvelt með að túlka. Í dag er til mikið af áhugaverðum tólum til að hjálpa fólki að búa til skiljanlegar niðurstöður og línurit í Excel eða úrtak úr SPSS eru ekki einu leiðirnar. Með smá vinnu er hægt að einfalda framsetningu og setja fram niðurstöður þannig að það skiljist.

Á námskeiðinu í dag var stór hópur, ég var í raun virkilega ánægður að sjá hversu margir ákváðu að mæta. Sjálfur hef ég áður séð um að skipuleggja viðburð fyrir háskólanema oft með lélegri aðsókn. Líklega var lágmarkinu náð ég fékk Impru til að koma og kenna háskólanemum hvernig ætti að stofna eigið fyrirtæki og hvernig Impra gæti hjálpað þeim að gera þetta. Þetta var 2002 og líklega lítill áhugi á frumkvöðlastarfsemi innan Háskólans þá. Þegar 15 mínútur voru liðnar af fyrirlestrinum, mætti einn félagi minn sem ég hafði blikkað til að mæta. Fyrirlesarinn ákvað að halda fyrirlesturinn og gerði það með miklu glæsibrag fyrir okkur tvo.

Ætli kynningar dragi ekki eitthvað meira af fólki að. Bæði er þetta eitthvað sem allir háskólanemar þurfa að gera en því miður er enginn formleg kennsla í þessu. Nemendur eiga bara að vita hvernig á að standa fyrir framan stóran hóp og kynna verkefni. Fyrir vikið vantar mikið upp á margar kynningar, bara klukkustund í kennslu og það er hægt að hjálpa fólki virkilega að bæta úr þessu.

Ég var alla vega virkilega ánægður að fá þetta tækifæri hjá Vöku til að kynna þetta fyrir fólki.

Samfélagsmiðlarnir

    Comments are closed.