Söngvaseiður

SoundofMusicÉg kvöld fór ég á Söngvaseið í Borgarleikhúsinu. Auðvitað frekar seinn, enda búið að sýna leikritið síðan í maí. Ég fékk hins vegar nýlega gefins kort á 4 sýningar í Borgarleikhúsinu og var þetta önnur sýningin af þeim. Sú fyrsta var Við borgum ekki, við borgum ekki, eftir Dario fo og þeim tíma var ekki vel varið enda frekar ófyndin sýning að flestu leiti með ódýra brandara.

Söngvaseið þarf ekki að kynna, flestir þekkja amk. lögin og margir hafa séð myndina. Leikritið var sett upp mjög svipað og myndin þótt einstaka kaflar hafi verið öðruvísi. Sýning var í stuttu máli mjög góð.

Ég held að í kvöld hafi ég eignast uppáhaldsleikkonu, Valgerði Guðnadóttur, hún gerði sýninguna algjörlega þegar hún lék Maríu. Hún var líflega og skemmtileg leikkona og frábær söngvari. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hún hafi verið betri en Julie Andrews í myndinni. Mér skilst að Valgerður eigi einnig eftir að leika í Gauragangi og það verður spennandi að sjá hana þar líka.

Ég sé að það er búið að skipta um kaptein frá því sýningin hófst, en núna leikur Rúnar Freyr kapteininn en áður var það Jóhannes Haukur Jóhannesson. Ég held að hvorugur sé sérstaklega trúverðugir sem úrillur kapteinn með sjö börn, hokinn af reynslu úr fyrri heimsstyrjöldinni (og um 20 árum eldri en María). Rúnar var frekar stífur eins og hann á til þegar hann er að leika en hann má eiga að hann getur sungið og þar stóð hans sig ansi vel.

Krakkarnir voru frábærir líka, svona flestir. Ég var ekki sérstaklega hrifinn af elsta syninum, en elsta dóttirin var frábær. Abbadísin var líka frábær.

Ég var heillaður af hliðinu að klaustrinu og hversu mikið hafið verið lagt í það. Hins vegar fannst mér alveg vanta að sýna þá miklu fjallasýn, sem er grunnurinn í myndinni og mikið er talað um. Það bregður einu sinni fyrir mynd af fjöllunum, en það hefði mátt gera miklu meira af því.

Það er áhugavert að hugsa til þess að sýningin er að einhverju leiti byggð á sannsögulegum atburðum, þótt það sé búið að “holywood”-væða söguna ansi mikið. Raunverulega sagan er ekki síður áhugaverð, þótt hún sé ekki jafn söngleika væn, en meira má lesa um raunverulega söguna hérna og hérna.

Annað sem er alltaf jafn áhugavert er að kapteininn hafi verið í austuríska sjóhernum. Það er nokkuð merkilegt í ríki sem er strandlaust sé sjóher. Auðvitað er saga sjóhersins í landinu ansi gömul og nær til þeirra tíma þegar Austurríki (og forverar þess) áttu land að sjó.

Þótt svona sýning sé létt og skemmtilegt er alltaf áhugavert að hugsa um það sem er að baki og því umhverfi sem var þegar atburðirnir eiga sér stað. Á tímum ótta við innrás frá óvinveittum her og það hugarfar sem ríkti á þessum tíma.

Samfélagsmiðlarnir

    One thought on “Söngvaseiður

    1. Sá sýninguna einmitt um miðjan dag í gær. Eitt það skemmtilegra sem mér þykir alltaf við Sound of Music er það andspæni heilbrigðrar þjóðerniskenndar og nasisma sem fram kemur í söngleiknum/myndinni.