Birtum þá allt

Ég hef margoft áður skrifað um þessi mál og ekkert breytist.  Þessar birtingar á álagningu í núverandi mynd eru einstaklega ósmekklegar og heimskulegar sem skila engu nema að fylla upp í einhverja hnýsni.

Umræðan um allt þetta gegnsæi hefur verið algjörlega á villugötum, þar sem það er verið að réttlæta hlut sem er þá að minnsta kosti stórgallaður.

Upplýsingarnar eru bara aðgengilegar hjá skattstjóra hvers skattaumdæmis fyrir sig, þannig að ef mig grunar að Villi fyrir vestan sé að svíkja undan skatti eða Elli á Egilsstöðum þarf ég að fara í skattstjóra viðkomandi umdæmis og sækja þessar upplýsingar.  Halli á Höfn þarf að fara til Egilsstaða til að komast að því hvort nágranninn á Höfn sé að svíkja undan skatti.

Upplýsingarnar eru hálf ógegnsæjar.  Það eru bara tvær tölur sem gefa mjög takmarkaða mynd af því fyrir hvað er verið að greiða skatt fyrir í raun og veru.  Engin sundurliðun. Það þarf svo að reikna út út frá þessum tölum til að fá launin, en samt gefur það ekki heildarmynd af  innkomu viðkomandi eða annað sem hjálpar til að átta tekjusamsetningu viðkomandi.

Tekjur einar og sér gefa enga mynd af því hvort ég hafi efni á því að kaupa mér glæsivillu í Garðabæ.    Ég get lifað eins og kóngur og safnað skuldum og keypt mér bíl og hús.  Þannig að þótt hægt sé að komast að því að ég sé með litlar tekjur, er það eitt og sér engin vísbending að ég sé skattasvindlari.  Kannski fékk ég arf – sem sést  ekki beint í þessum upplýsingum.  Kannski á ég ekki bílinn sem ekki um á – sem sést ekki heldur.  Það eru engar upplýsingar um eignir og skuldir.

Vika um hásumar er ansi stuttur tími.  Þú þarft því að vera í startholunum til þess að ganga í að sækja upplýsingarnar á sama tíma og flestir eru í sumarfríi. Ef það klikkar þá verðurðu að bíða í 12 mánuði til að komast að því hvort granninn var að svindla.

Þeir sem réttlæta þetta kerfi gera það í ljósi gegnsæis, sem þó er nánast ekkert. Eins og kerfið í dag þá svalar það fyrst og fremst hnýsniþörf enda hefur enginn, nokkru sinni bent á að þetta hafi orðið til að koma upp um stóra skattsvikara – svo ég hafi vitað til amk.

Menn hafa talað um upplýsingar um að þetta veiti upplýsingar um launaþróun í landinu, sem þetta gerir alls ekki. Ég minnist þess ekki að þetta hafi verið notað í samningum launþegahreyfinga, enda mun heilstæðari upplýsingar til.  Þessi blöð handvelja einstaklinga sem þau telja áhugaverða.  Slíkt gefur vægast sagt skakka mynd af þýðinu.

Ef menn vilja endilega hafa þetta gegnsæi, af hverju berst fólk þá ekki fyrir því að hafa þetta alvöru gegnsæi. Ganga alla leið. Opið og á netinu og í boði allt árið um kring.  Fólk geti skráð sig inn og fengið þessar upplýsingar og þá á formi sem hægt er að skilja og sundurliðaðar tekjur.  Að ganga alla leið verður líka að þýða að menn hafi allar upplýsingar.  Eignir og skuldir þurfa þá að vera þarna líka.  Í ljósi gegnsæis væri þá eðlilegt að fólk þyrfti að skrá sig og hver og einn gæti fengið upplýsingar um þá sem væru að fletta sér upp. Það er jafn eðlilegt og hitt.  Ef það á að vera fullkomið gegnsæi – ætti ég að geta vitað hver hafði áhuga á að vita um mínar tekjur.

Allt annað er bara hálfkák og er séð og heyrt væðing, þar sem fólk smjattar á tekjum örfárra einstaklinga.

Hin leiðin og sú eðlilega að menn hætti þessu alfarið.

Samfélagsmiðlarnir

  Hin dyggi stuðningur

  Ég sé á samfélagsmiðlunum að margir eru að átta sig á því að þeir eru á leiðinni í verkfall. Til hamingju!

  VR er líklegast með skrýtnustu samsetningu nokkurs verkalýðsfélags –mér dettur amk. ekki neitt annað í hug. Félagið er með slatta af félögum sem er í með laun yfir 900 þúsund og svo er félagið með fólk sem er undir 300 þúsund. Samt hefur félagið þótt álitlegur kostur hjá öllum þessum aðilum. Þeir sem hafa haft það betra hafa hingað til getað treyst því að VR hafi gengið frá samningum án þess að þurfa að beita verkfallsvopninu, og þá hefur það eingöngu verið gert með hluta af mannskapnum og í mjög takmarkaðan tíma – fyrir mjög mörgum árum síðan.

  Í gær birtist kom niðurstaða þar sem félagar kusum um að fara í verkfall. VR er að fara í verkfall. Allir. Jafnt þeir sem eru með 900 þúsund sem og þeir sem eru með 300 þúsund. Sama hvort viðkomandi samdi sjálfur eða hvort hann er á taxta. Af samfélagsmiðlum að dæma þá virðast ansi margir ekki hafa áttað sig á því að þeir væru “þyrftu að fara” í verkfall og talið að þeir væru „lausir“ því þeir semdu um sín laun sjálfir.

  Nú er það bara þannig að meirihlutinn ræður. Hafi lágmarksþátttaka náðst, þá gildir það. Ég sé að margir fagna þessu og telja að umboðið sé skýrt og aðrir deila um að það sé óljóst. Sú umræða er algjörlega óþörf. Atkvæðagreiðslan fór fram og VR hefur umboðið til að fara í verkfall. Svo einfalt er það.

  Það sem er mun flóknara er þá framhaldið.

  VR ætlar að greiða 180 þúsund úr vinnudeilusjóði á mánuði fyrir fulla vinnu. Kaldhæðnin í því er að VR berst fyrir lágmarkslaunum upp á 300 þúsund og því er þetta rúmlega helmingur þess. Sem sagt þá dugir þetta skammt fyrir flesta. Það er því hætt á að þótt menn hafi samþykkt verkfall sé sá stuðningur ansi fljótur að dala. Mjög fljótt verður þrýstingurinn frá félagsmönnum að semja.

  Hitt er að verði verkfallið langt held ég að margir eigi eftir að hugsa sér til hreyfings úr VR. Margir eru jafnvel nú þegar farnir að gera það. Tengingin við verkalýðsfélög eru oft bara í gegnum sjúkrasjóð, orlofssjóð og íþróttastyrki. Ansi margir eru sjálfsagt að velta fyrir sér hvenær þeir notuðu þetta seinast og hvað er í boði á öðrum stöðum. Jafnvel að sleppa sleppa því að vera í slíku félagi.

  VR þarf því að spila rétt úr spilunum, því um leið og félagið þarf að ná farsælum samningum fyrir sína félagsmenn, mun mjög fljótt draga úr baráttuvilja félagsmanna (ef hann er þá fyrir hendi). Ekki bara heldur er líklegt að það hefði varaleg áhrif á félagið ef margir ákveða að hætta. Það hefði jafnvel verið betra að verkfallsumboð hefði ekki fengist.

  Samfélagsmiðlarnir

   Bullað um Bjarna Ben

   Ég sé að grein á vald.org hefur farið eins og eldur um sinu um netið, þar sem fjallað er um Bjarna Benediktsson og meinta spillingu. Greinin er góð en því miður algjör þvæla. Þetta er ekki einu sinni góðar samsæriskenningar. Það er nóg að lesa greinina, skjölin og greinarnar sem vísað er á til að sjá í gegnum bullið.

   Stóra sprengjan á að vera að Bjarni Benediktsson sé tengdur fyrirtæki sem er að gera einn stærsta fjárfestingarsamning sem gerður hefur verið eins og segir í greininni:

   „Núna 24. mars 2015 síðastliðinn, var gerður gríðarlega stór samningur við Elkem Silicor Materials en það er nafn Íslenska járnblendifélagsins í dag. Þetta er einn stærsti samningur um fjárfestingu við fyrirtæki sem gerður hefur verið frá því 2003 og er í heildina 120 milljarðar. Fyrirtækið framleiðir kísiljárn eða ferrosilicon (FeSi).“

   Þarna er vísað í frétt á netinu í þeirri frétt er ekki minnst einu einasta orði á Elkem. Heldur fyrirtæki sem heitir Silicor Materials. Hérna er linkur á heimasíðu fyrirtækisins ásamt upplýsingum um milljarða viðskipti þar sem þeir eru að fjárfesta á Íslandi.

   Um sögu fyrirtækisins segir:

   “The organization was founded as a development company in 2006 under the name Calisolar, with the goal of manufacturing low-cost photovoltaic (PV) solar cells from silicon designed specifically for the solar industry (“solar silicon”) rather than electronic-grade polysilicon.”

   Þetta er sem sagt bara eitthvað allt annað fyrirtæki sem er ekki á nokkurn hátt tengt Elkem. Það sem meira er, þá er fullyrt eitthvað allt annað nafn á fyrirtækið Elkem, en samkvæmt gögnum sem þau sjálf vísa í heitir Elkem bara Elkem og ekkert annað. Þrátt fyrir ítarlega leit finn ég ekki með nokkru móti neina tengingu á milli Elkem og Silicor. Þetta virðist vera tilbúningur höfundar sem gæti verið tilkomin vegna framleiðslu fyrirtækisins sem er kísiljárn eða ferrosilicon eins og stendur raunar í greininni.

   Seinna ruglið er álíka heimskulegt, af einhverjum ótrúlegum ástæðum eru menn að búa til alveg ótrúlegt hneyksli upp úr því að Bjarni Benediktsson sé tengdur Bílanaust. Hver sem skrifar þessa grein getur þó ekki lesið eigin gögn. Það stendur mjög skýrt og greinilega í þessum pappír sem höfundur sýnir í greinni að félagið hefur verið sameinað (og þar með afskráð) árið 2007. Þeir aðilar sem þarna eru skráðir, eru þeir aðilar sem voru í stjórn þegar félagið var afskráð. Það er augljóslega ekki stjórnir í afskráðum félögum og eiginlega frekar skrýtið að það sé hægt að fá pappír mörgum árum síðar frá fyrirtækjaskrá með slíkum upplýsingum eins og um virka stjórn sé að ræða.

   Að lokum hafa verið grafnar upp enn frekari sannanir á meintu hneyksli Bjarna, en það hefur komið í ljós að árið 2002 var Bjarni lögmaður Elkem. Þvílíkt hneyksli að Bjarni sem starfaði sem lögmaður á þessum tíma og var ekki kominn á þing hafi starfað fyrir fyrirtæki!

   Þetta er algjört bull frá upphafi til enda, það eina sem stendur eftir er að Bjarni er skráður bt aðili fyrir Elkem ASA. Sú skráning þýðir samt ekki neitt. Bjarni ber ekki ábyrgð á félaginu, er ekki í stjórn félagsins eða hefur ekki endilega nokkra einustu tengingu við félagið. Eina sem þetta þýðir er að á einhverjum tímapunkti var hann skráður tengiliður. Það var sjálfsagt gert fyrir 2002 þegar félagið keypti Íslenska Járnblendið og Bjarni var lögmaður þess. Síðan hefur það verið dótturfélag Elkem og móðurfélagið varla þurft annan tengilið á Íslandi en eigið félag.

   Það er algjör skömm af þessum skrifum. Það er sorglegt að sjá fólk dreifa þessari vitleysu. Því miður hefur fólk ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið og er tilbúið að trúa á spillingu. Það er í sjálfu sér verkefni fyrir Bjarna að koma í veg fyrir að slíkur jarðvegur sé fyrir hendi að auðvelt sé að koma slíkum sögum af stað. Höfundur greinarinnar á hins vegar að skamma sín, enda hefur þessi grein annað hvort verið skrifuð af mjög illum hug eða heimsku.

   Uppfært:
   Ég sé að það er uppfærsla á greininni, þar sem er látið eins og Silicor og Silicon hafi skolast til og um smá uppfærslu sé að ræða. Þetta var grunnurinn að allri greininni og “uppfærslan” er ný grein sem á ekkert skilt við þá gömlu nema að ruglið um Bílanaust stendur enn. Greinin er samhengislaust rugl og það væri hægt að skrifa annan pistil um ruglið í þessari nýju grein.

   Samfélagsmiðlarnir

    Ferðaþjónustan græðir en við borgum

    Samtök verslunar og þjónustu segja okkur frá því að ferðamenn hafi greitt tvo milljarða í skoðunarferðir í janúar. Það kemur reyndar ekkert óvart, þegar ég skrapp í bæinn áðan þá taldi ég 8 rútur sem voru á leiðinni úr bænum, fullar af ferðamönnum á leið að skoða norðurljósin. Það hefði væntanlega þurft að segja mér það tvisvar fyrir nokkrum árum að okkur tækist slíkt í janúar.

    Hin hliðin á þessu er að það er orðið alltof mikið álag á ferðamannastaði. Hugmyndin á Alþingi virðist vera að skattleggja þjóðina (ásamt ferðamönnum) til að mæta þessu góðæri í ferðamennsku.

    Það gengur svo sannarlega vel í ferðageiranum um þessar mundir. Icelandair græddi 9 milljarða í fyrra, þá eftir að reikna saman hagnað frá hundruðum eða þúsundum fyrirtækja sem starfa innan geirans.

    Nú þegar aldrei hefur gengið betur, þá á að rukka landsmenn sérstaklega. Þetta hljómar eitthvað öfugsnúið er það ekki? Ferðamannageirinn er að græða á tá og fingri og það að hækka á okkur skatta. Þetta er gert til að þessi fyrirtæki geti haldið áfram að græða.

    Úr því það á að nota þessa aðferð væri ekki rétt að færa þetta yfir á aðrar atvinnugreinar t.d. sjávarútveg? Nú gengur þeim vel og með sömu rökum ætti ekki að rukka þjóðina.

    Þótt þessi dæmi séu augljóslega ekki sambærileg, þá eru þau sett fram til að sýna að umræðan er á villigötum. Það á ekki að vera að deila um hvort og hvernig við landsmenn eigum að greiða niður ferðaþjónustuna. Það á að ræða hvað ferðaþjónustuna ætlar að greiða fyrir auðlindina.

    Samfélagsmiðlarnir

     Hetjur eða Skúrkar?

     Ég sé að Jóhann Páll er hættur á DV. Þeir félagar breyttust úr skúrkum og í hetjur á örfáum dögum eftir að í ljós kom að þeir höfðu haft rétt fyrir sér varðandi mál Hönnu Birnu. Eftir það þá hafa þeir félagar gengið á vatni að því er virðist. Þeir virðast vera hluti af „the untoucables“ og flytjendur fagnaðarerindisins og sannleikans.

     Um leið ég tek hatt minn ofan fyrir þeim að hafa fylgt þessu máli eftir eins og þeir gerðu, þá gleymist að stundum ratast kjöftugum satt orð á munn.  Því miður á það við um ansi margt sem ritað var í DV.

     Ég hef á köflum verið áskrifandi DV og viljað lesa og styðja fjölmiðla sem hafa verið að „skera á graftarkýlin“ eins og þeir segja sjálfir frá. Á endanum hef ég þó alltaf endað með segja upp áskriftinni. Þessi graftarkýli sem þeir voru að skera á voru einum of oft tilbúningur. Það þurfti oft ekki að hafa mikla þekkingu á málum til að sjá að umfjöllun var bæld, skæld og afskræmd. Mýflugur urðu að úlföldum. Blaðamennirnir virtust fyrst og fremst leita að blóðinu en ekki sannleikanum. Val á orðalagi var oft á þann veg að annað hvort skildi blaðamaðurinn ekki það sem hann var að skrifa um eða vísvitandi var verið að snúa út úr. Það reyndist oft erfitt að átta sig á því, hvað var satt og hvað var logið. Varla eftirsótt staða hjá fjölmiðili og því endaði ég á að segja blaðinu upp.

     Það verður því lítill söknuður af DV eins og það var. Um leið og maður vill hafa fjölmiðil sem uppfyllir þau háleitu markmið sem DV hafði, þá má fjölmiðillinn ekki missa augun af boltanum eins og DV gerði. Það er getur aldrei verið góður pappír að láta sig lítið varða um sannleikann og hugsa frekar um krassandi fyrirsagnir.

     Samfélagsmiðlarnir